Kórstjórinn

Þorgerður Ingólfsdóttir (f. 5. nóvember 1943) er tónlistarkennari og kórstjóri. Hún stofnaði Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og síðar Hamrahlíðarkórinn.

Þorgerður hefur haldið tónleika víða um heim með Hamrahlíðarkórunum og hefur lagt ríka áherslu á að kynna íslenska tónlist. Hún var aðalstjórnandi æskukórsins Radda Evrópu sem var viðamesta samstarfsverkefni menningarborga Evrópu árið 2000. Kórinn hélt tónleika um alla Evrópu og frumflutti m.a. tónverkið „…which was the son of“ eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt en verkið er tileinkað Þorgerði.

Hún hefur hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir störf sín og list þ.á m. íslensku fálkaorðuna og konunglegu norsku heiðursorðuna. Þorgerður hefur tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði tónlistar og situr í ráðgjafanefnd Europa Cantat kórahátíðarinnar, hún á sæti í dómnefnd Ólympíuleikanna í kórtónlist og er fulltrúi Íslands í norrænu tónlistarnefndinni, Nomus. Árið 2008 var hún gerð að heiðursfélaga í Félagi Íslenskra Tónlistarmanna FÍT. Þorgerður var valin borgarlistamaður Reykjavíkur 2012. (viðtal við Þorgerði á RÚV)

Fjölmörg tónskáld, bæði íslensk og erlend hafa samið verk fyrir Þorgerði og kórana hennar sem hafa frumflutt yfir 100 ný verk. Fyrr- og núverandi meðlimir telja nú eitthvað um 2000 manns.

Auglýsingar

Nýlegar færslur

Kórarnir í Hamrahlíð

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð er kór starfræktur af nemendum Menntaskólans við Hamrahlíð og er stjórnandi kórsins Þorgerður Ingólfsdóttir

Kórinn var stofnaður í haustbyrjun árið 1967 en þá hafði Menntaskólinn við Hamrahlíð verið starfræktur í um það bil eitt ár.

Þorgerður Ingólfsdóttir stofnaði kórinn og hefur stjórnað honum æ síðan. Hún er brautskráður söngkennari frá Tónlistarskóla Reykjavíkur og lærði einnig tónvísindi og kórstjórn í Bandaríkjunum.

Kórinn telur nú um 100 manns.

 

Hamrahlíðarkórinn

Árið 1981 bættist nýr kór við tónlistarsögu menntaskólans. Sá kór var skipaður þeim sem voru brautskráðir en vildu síður hætta að vinna með Þorgerði. Sá kór er kallaður Hamrahlíðarkórinn á meðan hinn kórinn er kallaður Kór Menntaskólans við Hamrahlíð.

Kórinn syngur á öllum helstu hátíðum og athöfnum í skólanum, enda styður skólinn vel við bakið á kórnum.

Kórinn heldur reglulega tónleika og syngur einnig á Kleppsspítalanum og Borgarspítalanum.

Fjölmörg tónskáld hafa samið eða útsett lög sérstaklega fyrir Hamrahlíðakórinn og má þar helst nefna Atla Heimi Sveinsson, Jón Nordal og Þorkel Sigurbjörnsson.

Heimild: Wikipedia sem vísar í: Heimir Pálsson. 1997. Syngjandi sendiherrar. Menntaskólinn við Hamrahlíð 30 ára. Menntaskólinn við Hamrahlíð, Reykjavík. 67-85.